laugardagur, 26. september 2015

Bless í bili áhugamál


Ég hef lengi hugsað um að fækka áhugamálunum mínum. Ekki vegna þess að það sé einhver regla sem segir að maður megi bara eiga eitt eða tvö áhugamál. Heldur vegna þess að ég vissi að ég myndi aldrei ná að sinna neinu almennilega ef ég ætlaði að sinna öllum. Fyrst þegar ég hugsaði um þetta fannst mér skelfileg tilhugsun að sleppa einu einasta áhugamáli - mér fannst þau öll svo frábær! Ég hlyti að geta eytt tíma í öll og náð að gera spennandi hluti í þeim öllum. Nei. Tíminn bara leið og leið og öðru hvoru gaf ég mér tíma í eitthvað þeirra. Ef ég var að fara í frí eða upp í bústað tók ég yfirleitt með mér hluti fyrir tvö eða þrjú áhugamál. Oft var það þannig að mér fannst ég þurfa að klára eitthvað sem ég var byrjuð á - þó áhuginn fyrir verkefninu væri löngu farinn. Í dag er ég (að mestu leyti) laus við þá hugsun sem betur fer - ef þú ert ekki að njóta þess, hættu.
Svo datt mér í hug að ég gæti tekið maraþon í hverju og einu. Leggja áherslu á eitt áhugamál í 21 dag, skipta svo. Ég prófaði það. Valdi *uppáhalds* áhugamálið fyrst og lagði mig alla fram við að gefa mér tíma. Það gekk ágætlega. Það var gaman að einbeita sér svona vel að einhverju sem ég hafði gaman af. Og þá var ég ekki að pæla í hinum sem voru "í biðstöðu".
Þegar að því kom að velja næsta áhugamál til að sinna áttaði ég mig á því að mig langaði ekkert til að skipta. Ég var núþegar að sinna því sem ég hafði mestann áhuga á núna. 
Þá loksins komst ég að niðurstöðu: Þó ég sleppi tökunum af áhugamáli í dag þýðir ekki að ég geti aldrei tekið það aftur upp. Flesta hluti er mjög auðvelt að eignast (og þeir þurfa ekki að vera nýjir). Færnin mun líklega ekki glatast. Ef áhuginn sprettur aftur upp seinna verður eflaust lítið mál að byrja bara aftur.
Þannig að núna loksins gat ég kvatt ýmist hannyrðadót, föndurpappír og græjur, teikniblýanta og saumadót. Bless í bili. Sjáumst kannski seinna.

Í staðinn ætla ég að einbeita mér að jóga, hugleiðslu og vatnslitun - og slappa af restina af tímanum!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli