fimmtudagur, 26. nóvember 2015

Hvað hefur mínimalískur lífstíll að gera með sparnað og umhverfisvernd?

Mínimalískur lífstíll.
Umhverfisvernd, nýtni, minnka sóun af ýmsu tagi, fækka umbúðum, sparnaður og endurvinnsla.


Þessu er gjarnan öllu hent saman í eina súpu og þetta talið vera samofið og órjúfanlega partur hvert af öðru.
Ég vil ekki meina það og ætla aðeins reyna að setja í orð hvers vegna.

Að mörgu leyti eru þessi seinni atriði áhugamál. Sumir hafa gaman af því að leggja áherslu á þau í sínu lífi, aðrir ekki.
Mínimalískur lífstíll er hins vegar, eins og orðin gefa til kynna, lífstíll. Að lifa lífinu þínu þannig að þú gerir það sem þér finnst skemmtilegt, átt þá hluti sem þú hefur gagn og gaman af og reynir að vera laus við óþarfa. Öllum finnst gaman að hafa tíma fyrir það sem er skemmtilegt og þurfa ekki að pæla mikið í óþarfa sem veitir enga gleði.
Fyrir flesta myndi mínimalískur lífstíll þá þýða að geyma ekki öll ósköpin af dóti og drasli "bara vegna þess" eða "gæti mögulega þurft að nota einhverntímann". Fyrir flesta myndi það líka þýða minni tíma varið í verslunum því þeir hafa áttað sig á því að þeir 'þurfa' ekki fullt af meira dóti.


Þeir sem hafa áhuga á umhverfisvernd kaupa frekar notaða hluti eða þá umhverfisvænni hluti.
Þeir sem vilja spara reyna að kaupa hluti ódýrt og minna af óþarfa eða lúxus.

Ég held að meirihluti manna hafi ekki gaman af því að þurfa að verða sér úti um nýja hluti eða spá t.d. mikið í því hverju þeir klæðast hvern daginn, svo kannski reyna þeir sem vilja lifa mínimalískum lífstíl frekar eiga fáa og vandaða hluti og flíkur. Þannig fer minni tími í að kaupa nýtt (ef hitt bilar eða skemmist) og minni tími fer í að t.d. velja föt því færri föt eru í skápnum.
Þetta er vitaskuld mismunandi eftir fólki. Sumir hafa gaman af því að leita að nýjum hlutum og klæða sig vel og fjölbreytt.

Með því að vera meðvitaðari um hvað maður kaupir gæti maður þó sparað pening og hugsað vel um umhverfið í leiðinni.
En maður gæti líka keypt rándýr föt og hluti í stað þess að kaupa marga ódýra.
Eða jafnvel gæti maður keypt föt og hluti sem eru óumhverfisvænastir.

Eitt leiðir því ekki endilega af sér annað þó þessi áhugamál geti farið mjög vel saman við mínimalískan lífstíl.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli