sunnudagur, 15. nóvember 2015

Tvö pör af spariskóm - hvernig getur það talist mínimalískt?


Eftir að Nútíminn birti myndbandsviðtal við mig þar sem heimili mitt var skoðað heyrði ég nokkra gera athugasemd við það að ég ætti tvö spariskópör - hvernig gæti það nú talist mínimalískt? Það væri augljóslega miklu meira en nokkur einstaklingur þyrfti.

Ég tek þessum athugasemdum fagnandi því þarna er tækifæri til að leysa úr misskilningi. Þeir sem hugsa þetta þekkja hugtakið mínimalískur lífsstíll ekki nægilega vel. Þeir vilja kannski meina að mínimalískur lífsstíll sé það sama og naumhyggja. Og að það þýði að maður eigi að eiga eins lítið og nauðsynlegt er. Það er ekki alveg rétt svo ég vildi útskýra markmiðið með því að lifa mínimalískum lífsstíl aðeins nánar.

Til að byrja með skulum við skoða skilgreininguna á mínimalisma. Þetta er skilgreining sem ég skrifaði en hana má finna mjög svipaða á flestum erlendum vefsíðum sem fjalla um mínimalískan lífsstíl.  
Mínimalískur lífsstíll er að hafa í lífi þínu aðeins það sem þú þarft og nýtur þess að hafa. Laus við óþarfa. Það eru engar reglur um hvað á að eiga mikið af hinu eða þessu.

Hann snýst ekki um að eiga eins lítið og maður getur eða að eiga bara nauðsynjar, heldur að það sem þú átt gefi lífi þínu gildi. Þess vegna er mínimalískur lífsstíl jafn ólíkur á milli einstaklinga og við erum mörg.

Það sem sumir telja óþarfa vekur gleði hjá öðrum. Ég myndi t.d. telja það óþarfa að eiga borvél. Ég get vel fengið hana lánaða hjá fjölskyldumeðlimi þegar ég þarf að nota hana. Einhverjum öðrum sem myndi finnast það nauðsynlegt, eða í það minnsta gagnlegt og skemmtilegt, að eiga borvél myndi kannski láta nægja að eiga eitt skópar fyrir sérstök tilefni eða jafnvel ekkert.

Þannig liggur það í augum uppi að eins manns nauðsyn er annars óþarfi. 

Að því sögðu þá eru þessi tvö skópör ekki heilög fyrir mér, ég tengist þeim ekki tilfinningalega, ég vil alls ekki eiga fleiri og gæti vel lifað með aðeins eitt en hef gaman af þessum tveimur sem ég á.
Fyrir einhvern sem aldrei notar spariskó þjóna þeir engum tilgangi og væri þá í anda mínimalísks lífsstíls að losa sig við þá (ef hann ætti þá til að byrja með). Eða ef einhver elskar sparilega skó og notaði þá oft væri vel réttlætanlegt að eiga fleiri pör.

Að lifa í anda naumhyggju getur vissulega talist sem mínimalískur lífsstíll ef maður hefur gaman af því. En að lifa mínimaliskum lífsstíl hefur víðari skilgreiningingu og því ekki það sama og naumhyggja.*

*Ég tek það fram að enn hef ég ekki séð góða útskýringu á orðinu naumhyggja sem lífsstíll en geri ráð fyrir að það sé á þá leið að "lifa aðeins með það sem þarf eða telst nauðsynlegt".

Engin ummæli:

Skrifa ummæli