miðvikudagur, 11. nóvember 2015

Spurt og svarað

Í september birtist grein eftir Ástu Andrésdóttur í blaðinu Eftir Vinnu sem gefið er út af Viðskiptablaðinu. Greinin er unnin úr svörum mínum við eftirfarandi spurningum en hér birti ég svörin í fullri lengd. 
Skrifuð 16. ágúst 2015


Út á hvað gengur minímaliskur lífsstíll? 

Mínimalískur lífsstíll er að hafa í lífi þínu aðeins þá hluti sem þú þarft og nýtur þess að hafa. Laus við óþarfa. Það eru engar reglur um hvað á að eiga mikið af hinu eða þessu. Hann snýst ekki um að eiga eins lítið og maður getur eða að eiga bara nauðsynjar, heldur að það sem þú átt gefi lífi þínu gildi. Þess vegna er mínimalískur lífsstíl jafn ólíkur á milli einstaklinga og við erum mörg. 
Hverjir eru kostir hans? 
Lífið verður einfaldara. Að elda, þvo þvott, þrífa húsið, pakka í ferðalög eru allt athæfi sem geta verið leiðinleg og langdregin ef líf þitt er fullt af óþarfa. Með því að losa sig við óþarfan verður flest öll dagleg verk auðveldari og tímanum getur verið varið í það sem skiptir þig mestu máli. Ef barnaherbergið er ekki yfirfullt af leikföngum er auðveldara fyrir börnin að leika sér, einbeita sér í leik og líklegra að þau geti sjálf gengið frá. Ef þú veist hvað þú átt og þarft ólíklegar að leita að einhverju. Tímanum er varið með fólki sem þú elskar og að gera það sem skiptir þig máli. Hafi þér tekist að mínimalisera fataskápinn þinn er auðvelt að pakka fyrir ferðalög eða velja föt fyrir sérstök tilefni. Ekki “fullur skápur af engu til að fara í”. 
Hvað telur þú að skýri mikla aukningu á áhuga fólks á því að losa sig við óþarfa dót og einfalda líf sitt?
Aukin umhverfisvernd hefur talsverð áhrif er ég viss um. Einnig aukin vakning í því að við vinnum of mikið og aðeins til að eiga stærra hús eða fleiri og flottari hluti. En annars þori ég ekki alveg að segja hvað það er. Kreppan hefur eflaust haft einhver áhrif á fólk til að segja nei takk við ofneyslu og efnishyggju. 
Hvernig kviknaði áhugi þinn á þessu málefni?
Ég byrjaði að lesa bloggið Zen Habits þegar ég var að leita að ráðum til að vakna snemma og þar fyrst sá ég talað um að eiga færri hluti og lifa einfaldari lífi. Þá bjó ég í lítilli íbúð með alltof mikið af dóti og stórum húsgögnum. Mér fannst ég vera “í kremju” í íbúðinni minni. Einn daginn ákvað ég að nóg væri komið og að ég skyldi losa mig við allt þetta “drasl”. Ég tók myndir inn í alla skápa og hillur til að geta seinna séð árangurinn. Þegar við fluttum stuttu seinna fór stór hluti af kössunum í Góða Hirðinn og margir pokar í Rauða Krossinn. 
Hefur mínimalískur lífsstíll breytt lífi þínu á einhvern hátt? Hvernig þá? 
Já! Ég kaupi minna og vel gæði framyfir magn. Ég hef losað mig við ca. 75% af fataskápnum. Ég eyði minni tíma í að spá í hlutum sem mig langar til að kaupa. Ég reyni að njóta augnabliksins meira og kann betur að meta það þegar ég hitti fólk sem mér þykir vænt um. Þegar við ferðumst, hjón með barn, er meira en nóg að hafa 2 handfarangurstöskur. Þegar við höldum veislur þá yfirleitt afþökkum við gjafir og ég reyni að gefa mínimalískar gjafir. Ég upplifi minni græðgi og öfund. Ég er ánægð með það sem ég á og veit að fleiri eða flottari hlutir er ekki það sem skiptir máli þegar kemur að hamingju minni. 
Hvað kom til að þú stofnaðir Facebook hópinn? 
Ég og Magnea vinkona mín höfðum rætt þessa nýju lífsýn okkar í nokkurn tíma (sumarið 2013) þegar við vorum báðar í fæðingarorlofi. Ég var þá að fara að flytja og Magnea var nýbúin að selja annan fjölskyldubílinn sem varð til þess að við veltum óþarfanum og einfaldari lífsstíl fyrir okkur. Við vorum báðar meðlimir í ýmsum Facebook hópum tengdum barneignum og uppeldi svo umræður á netinu var eitthvað sem okkur fannst sniðugt og gagnlegt. Okkur þótti því sjálfsagt að stofna hóp til að spjalla um þetta líka ásamt öllum sem kynnu að hafa áhuga. 
Hvenær var það? 
 Sumarið 2013. 
Hvað hefur hópurinn marga notendur núna? 
2,454 (14. ágúst). Á einum mánuði hafa bæst við rúmlega 2000 notendur í kjölfar greinar sem birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11. júlí. [Uppfært: rúmlega 5400 meðlimir 11. nóvember 2015] 

Hvers konar umræður fara fram þar? Hvað brennur á fólki? 
Ýmist er fólk að deila áhugaverðum umfjöllunum um mínimalískan lífsstíl eða leita ráða um góðar leiðir til að sigta út óþarfa dót. Margir segja frá því hvað þau upplifi mikinn létti við það að einfalda líf sitt á einhvern hátt - oft í tengslum við ferðalög, þrif eða tiltekt. Ef fólk er nýbyrjað að velta fyrir sér einfaldari lífsstíl er mjög algengt að fólki finnist það yfirþyrmandi verkefni að taka húsið sitt í gegn eða losa sig við hluti sem það tengist tilfinningalega. Þegar það kemst í gegnum fyrstu skrefin er oft erfitt að hætta og ánægjan yfir árangrinum kemur hratt. 
Getur þú mælt með bókum eða vefsíðum tengdum efninu? 

  • Bókin “The Life Changing Magic of Tidying Up, Marie Kondo” er frábær til að koma manni af stað í að losa sig við dót. 
  • Zen Habits bloggið eftir Leo Babauta  
  • Becoming Minimalist bloggið eftir Joshua Becker  
  • The Minimalists bloggið eftir Joshua Fields Millburn og Ryan Nicodemus 
  • Light by Coco á YouTube 
  • Heimildarmyndin “The True Cost” um efnishyggju, sóun, mengun og illa meðferð á fólki í fataframleiðsluiðnaðinum. Mynd sem allir ættu að horfa á. Hún er á NetFlix. 
  • Heimildarmyndin “I’m Fine, Thanks” um fólk sem fór einstakar leiðir til að finna gleðina í lífinu 

Marie Kondo aðferðin. Hvert er inntak hennar?
KonMari aðferðin gengur út á að fara í gegnum allt dótið sitt og losa sig við hvern hlut sem ekki vekur gleði hjá manni. Taka á einn flokk hluta fyrir í einu t.d. föt, safna þeim öllum saman á einn stað og meta hvern og einn. Ef þú ert ekki handviss um leið og þú tekur hann upp að hluturinn gefi þér ánægju skaltu losa þig við hann. Þannig er farið í gegnum alla hluti á heimilinu. Flokkarnir sem hún nefnir eru föt, bækur, smámunir og tilfinningalegir hlutir. Smámunir innihalda allt frá raftækjum til handklæða til bréfaklemma. Tilfinningalegir hlutir geta verið t.d. ljósmyndir, fyrstu barnaskórnir eða gamlar dagbækur. Marie Kondo, höfundur aðferðarinnar, segir að best sé að gera þetta allt í einum rykk eða á um það bil 6 mánuðum. Þannig muni maður vera laus við óþarfa drasl það sem eftir er ævinnar. 
Hefur þú prófað hana og þekkirðu fleiri? 

Ég las bókina bara núna í júlí. Við erum í sumarvinnu úti á landi en búum í Garðabæ svo ég hef ekki komist í það. Sem betur fer kannski - annars hefði sumarið mitt farið í að taka til! En ég stefni á að byrja þegar við komum til baka og vera búin um áramót. Vinkona mín Guðrún las bókina um aðferðina “The Life Changing Magic of Tidying Up, Marie Kondo” og hafði þetta að segja um hana:
Guðrún Baldvinsdóttir: “Ég las hana um daginn og hún breytti lífi mínu! Hún segir að maður eigi að koma við hvern hlut og velta fyrir sér hvort hluturinn skipti mann máli, spyrja sig: "Does it spark joy?" Núna nota ég þessa setningu á allt í lífi mínu! Til hvers að eiga eitthvað eða gera eitthvað sem veitir manni ekki ánægju? Ég er búin að fara yfir fötin mín, bækurnar mínar og snyrtivörurnar mínar með þessari aðferð og mér líður miklu betur í íbúðinni minni. OG það sem meira er að eftir að ég byrjaði á þessu hefur það haft áhrif á fólkið í kringum mig og þau eru líka byrjuð á þessu. KonMari sagði að það myndi gerast, en ég trúði því einhvern veginn ekki. En viti menn!”
Hvaða fleiri aðferðir eru í boði? 
Það eru ekki margar svona vel þekktar aðferðir en ýmsar leiðir sem hafa reynst vel hjá fólki í okkar hóp eru: 

  • Project 333.  Veldu 33 flíkur, meðtalið skór, skartgripir (ekki þeir sem þú notar dagelga) til að nota næstu 3 mánuðina. Ef þú vilt ekki losa þig við fötin sem þú velur ekki geturðu geymt þau. Að þeim tíma liðnum geturðu skipt út, ýmist fyrir eitthvað sem þú geymdir eða keypt eitthvað sem vantar. 
  • Hafa tilbúna kassa fyrir hluti sem á að losa sig við. Til dæmis einn fyrir Góða Hirðinn í Sorpu, Einn fyrir Rauða Krossinn og einn fyrir Konukot. Svo í hvert skipti sem þú finnur einhvern hlut sem þú vilt losa þig við þá veistu nákvæmlega hvar þú ætlar að setja hann. Setja hluti sem þú heldur að þú getir losað þig við í kassa og merkja með dagsetningu, ef þú hefur ekki opnað kassan í langan tíma (3 eða 6 mánuði) þá má losa sig við kassan. 
  • Pökkunar-partý. Pakkaðu öllu niður í kassa í einu herbergi eða öllu húsinu ef þú ert í stuði. Bara eins og þú myndir gera ef þú værir að flytja. Svo þegar þú þarft að nota einhvern hlut geturðu tekið hann úr kassa. Eftir smátíma geturðu losað þig við allt sem er enn í kassa. (Lesið meira: The Minimalists :: Packing Party
  • Ein alveg skaðlaus er að snúa við öllum herðatrjánum í fataskápnum og sjá hversu mörg hafa snúist við aftur eftir 3 mánuði. 

Ef maður vill tileinka sér þennan lífsstíl, hvernig er best að byrja?
Til að byrja með er nauðsynlegt að sjá fyrir sér hvernig lífið manns væri með færri hluti. Taka smástund í að ímynda sér heimilið sitt án drasls, enginn óþarfi en bara það sem er nauðsynlegt og það sem er í uppáhaldi. Svo þegar maður sér að það sé eitthvað til að breyta, of mikið af hlutum í lífi manns, byrja bara smátt að losa sig við. Það sem er oftast auðvelt að losa sig við eru hlutir sem eru ónýtir eða föt sem eru götótt og slitin. Svo eitthvað sem er löngu komið úr notkun en þó hægt að nota. Erfiðara eru hlutir sem eru í notkun en veita manni ekki gleði eða maður myndi vilja hafa öðruvísi. Erfiðast fyrir flesta eru líklega hlutir sem hafa einhverja tilfinningalega tengingu. Ef þessar setningar eiga við þig gæti verið að smá mínimalismi sé svarið: “Hlutirnir mínir taka of mikinn tíma (taka til, þrífa, raða, þurrka af...)” “Ég þarf oft að leita að einhverju” “Ég á fullt af fötum en á oft erfitt með að ákveða hverju ég vil klæðast”. 
Hvaða áhrif hefur það þegar maður hefur aðhyllst mínimalískan lífsstíl í einhvern tíma? Líður manni til dæmis almennt betur? Hverju breytir þetta í stóra samhenginu? 
Maður eyðir orkunni í skemmtilegri hluti. Meiri tími með skemmtilegu fólki eða að gera það sem manni líkar mest. Sálfræðingnum Tim Kasser hefur sérhæft sig í efnishyggju og vellíðan. Í samantekt á nokkrum rannsóknum komst hann og teymið hans að því að því meira sem fólk metur efnislega hluti því meira upplifir það óþægilegar tilfinningar eins og þunglyndi og kvíða. Á sama tíma upplifir það færri góðar tilfinningar og sætti með sjálf sig. Þannig má kannski segja að mínimalískur lífstíll geti stuðlað að meiri hamingju. 
 “We found that the more highly people endorsed materialistic values, the more they experienced unpleasant emotions, depression and anxiety, the more they reported physical health problems, such as stomachaches and headaches, and the less they experienced pleasant emotions and felt satisfied with their lives.” Umfjöllun um hátíðir og vandamál sem fylgja efnishyggju
Hvers vegna eigum við mörg hver svo erfitt með að sjá á eftir hlutunum okkar? 
Af því við gleymum því hve auðvelt er að eignast þá aftur.
Hvað er hægt að gera við hlutina sem maður vill losna við? 
Sumt er hægt að selja á Facebook sölusíðum eða Bland en það getur verið tímafrekt auðveldast er að gefa þá á eftirfarandi staði: 

  • Rauði krossinn fatasöfnun (gámar á dreif um bæinn og líka á Sorpu) Föt og skór, heil og sjúskuð, líka nærföt og sokka. Rúmföt (líka sjúskuð og rifin) sængur, koddar. 
  • Konukot Eskihlíð 4, S. 545-0409 / 861-0400 (Kristín Helga forstöðukona) Þiggja m.a. handklæði, sápur, snyrtivörur, sjampó og hárnæringu, ilmvötn. 
  • Góði hirðirinn (gámur á Sorpu stöðvum) Húsgögn, húsmunir, leirtau, gardínur, dúkar, raftæki, leikföng, plötur, dvd, cd, bækur, vídjóspólur. 

Þetta snýst svo ekki bara um að henda út heldur líka að gæta þess hvað maður eignast og tekur inn á heimilið, ekki satt? Hvað er gott að hafa í huga í því sambandi?
 “Too many people spend money they haven’t earned, to buy things they don’t want, to impress people they don’t like.” —Will Rogers 

Ekki kaupa hluti í flýti. Spyrja sig: “Er þetta eitthvað sem ég þarf - eða eitthvað sem mér finnst ég þurfa að eiga vegna samfélagslegrar pressu?” “Mun þetta gera lífið mitt betra eða er þetta enn einn hluturinn til að þvo, þurrka af, taka til, raða og skipuleggja” 
Nær þessi speki til fleiri hliða lífsins? 
 Algerlega. Það má færa þetta yfir á flest allt í lífi okkar. Velja betur fólk sem maður umgengst, fækka áhugamálum sem maður stundar og einbeita sér betur að því mikilvægasta. Jafnvel matinn sem við borðum! Ef þú ert södd/saddur, hættu þá að borða. Þó þú hafir borgað fyrir allan matinn á disknum á veitingastað þá mun þér ekki líða betur þó þú borðir meira af honum. Einnig má taka til í huganum sínum með því að stunda hugleiðslu. 
Eru til einfaldar leiðir til að halda öllu á sínum stað á heimilinu svo að allt verði ekki alltaf í drasli? 

Ekki bara taka til - losaðu þig við drasl. Þú þarft ekki að skipuleggja dót sem þú átt ekki.
Eitthvað fleira sem þú myndir vilja segja frá að lokum, tengt mínímalískum lífsstíl?
Um leið og fólk kynnist mínimalískum lífstíl aðeins betur og prófar að lifa með færri hluti mun það ekki vilja fara tilbaka.

Ég vona að þetta hafi svarað einhverjum spurningum sem þið hafið velt fyrir ykkur eða þá að þið hafið lært eitthvað nýtt og haft gaman að.
Þórhildur

Engin ummæli:

Skrifa ummæli