fimmtudagur, 26. janúar 2017

Enginn sykur í janúar

Nú er langt liðið á janúar og margir sykurlausir dagar að baki. Hér vil ég deila reynslu minni og ástæðum fyrir þessari áskorun.

Af hverju sykurlaus?

Ég held það þurfi ekki mikið að útskýra af hverju einhver myndi prófa að taka út sykur enda er öllum kunnugt hvað sykur er slæmur fyrir okkur. Þess vegna vildi ég prófa að taka út viðbættan (hvítann) sykur.

Planið

Ég fór þó ekki svo langt að lesa á allar innihaldslýsingar í mat sem var ekki augljóslega sætur. Aðallega var þetta til að taka út sætindi, kökur og sykrað gos. Þannig að pulsubrauð var í lagi þó það innihaldi sykur. Ég mátti því borða ávexti, bæði ferska og þurrkaða. Svo leyfði ég sykurlaust gos en ég drekk ekki mikið af því hvort eð er. Dökkt súkkulaði, 70% eða meira, fíkjur og ostar var það sem kom helst í staðinn fyrir annað sykrað möns sem ég var vön (aðallega OREO og suðusúkkulaði). Mér fannst það bara fín tilbreyting. Ég keypti líka oftar jarðaber sem ég geri vanalega ekki og þeirra naut ég í botn!

Reynslan

Eftir nokkra daga þar sem ég þurfti að minna mig á að ég ætlaði að vera sykurlaus þennan mánuð var þetta ekki svo mikið mál. Mér fannst meira að segja auðvelt að fara ísrúnt á Valdísi og fá mér ekki ís.
Nokkrir svindldagar læddust inn sem ég hafði ekki gert ráð fyrir en þegar hugmyndin um það kom upp fannst mér það sjálfsagt - þetta er jú bara gert í tilraunarskyni og til gamans. Fyrsta svindlkvöldið var þegar við hjónin fórum út að borða og ég fékk mér kokteil. Kannski ekki mikið svindl en það var eitthvað sykrað í honum. Næstu svindldagar voru ekki af jafn miklu tilefni og mögulega ekki þess virði.

Núvitund skiptir máli

Í þau skipti sem mig langað mest að svindla var ég þreytt eða pirruð og langaði að tríta mig af því mér fannst ég eiga það skilið. 
Við vorum í tvær vikur á Ísafirði þar sem ég var heima með 4 ára og 6 mánaða strákana okkar á daginn á meðan maðurinn minn vann. Þá voru stundum langir dagar og fátt hljómaði betur en að háma í mig heilan pakka af OREO þegar strákarnir voru sofnaðir. En þá kom núvitundin sterk til leiks því þá áttaði ég mig vel á því að ég var að reyna að bæla eða sefa einhverjar tilfinningar/þreytu með mat. Ég eyddi smá tíma í að velta því fyrir mér - eins og ég lærði á núvitundarnámskeiði - og finna aðrar leiðir til að vinna úr þeim. Oft með góðri sturtu, hugleiðslu, göngutúr eða tebolla.
Ég held að það sama megi líklega segja um af hverju við kaupum hluti sem við höfum ekki góð not fyrir. Ef við getum aðeins staldrað við og skoðað hvaðan löngunin til að kaupa kemur held ég að við getum komist hjá flestum óþarfakaupum.

Eftirvæntingin betri en nammið sjálft

Það hefur verið sannað að tilhlökkun er oft stærri þáttur af gleðinni sem fylgir einhverju spennandi. Nákvæmlega þannig upplifði ég það í þau skipti sem ég leyfði mér að svindla. Þegar ég var búin að borða nammið var það ekki nærri því jafn gott og ég hafði séð fyrir mér og eiginlega ekki þess virði að svindla. Ég verð að segja að það kom mér aðeins á óvart. 
Hins vegar þegar ég valdi t.d. jarðaber eða fíkjur naut ég þess yfirleitt miklu meira. Ég borðaði það (oftast) með athygli og fannst gaman að velta fyrir mér litum, bragði, áferð og útliti þessara ávaxta.

Taka nesti með í veislu

Ókei, þetta gerðist reyndar ekki í þessum mánuði en mér finnst þetta eiga heima hér. Ég fór í 70 ára afmæli á síðasta ári. Eftir matinn voru bornar fram tertur, svaka rjóma-karamellu-marengs bombur. Mér varð eiginlega illt í maganum að horfa á þær og var frekar södd eftir matinn svo ég hafði ekki mikla lyst. Þá sé ég að ein frænkan í boðinu var með dökkt súkkulaði sem hún var að brjóta til að setja á undirskálina með kaffinu sínu. Fyrir algera tilviljun var ég líka með dökkt, mjólkurlaust súkkulaði með mér og ákvað að fá mér það í staðinn. Svo sátum við tvær og drukkum kaffi og smökkuðum dökka súkkulaðið hvor hjá annarri og töluðum um sykurminna líf. Þá var hún að taka út sykur hjá sér og kom þess vegna með nesti í veisluna. Mjög sniðugt - mér finnst eiginlega nauðsynlegt að fá eitthvað smá sætt með kaffinu.

Lokaorð

Þetta var bara mjög góð mánaðaráskorun og ég lærði ýmislegt. Í framhaldinu mun ég halda áfram að velja hollari kosti þó ég muni alveg leyfa mér ís og OREO öðru hvoru. Er t.d. mjög spennt fyrir vegan Ben&Jerry's sem ég keypti í gær og ætla að borða 1. febrúar!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli