miðvikudagur, 25. janúar 2017

Mánaðarlegar áskoranir í heilt ár

Ég ætla að gera áskorun í hverjum mánuði 2017. Ég minntist á þetta á mínimalista snappinu (SC: 'minimalistar'). Ég fékk hugmyndina frá Leo á zenhabits.net en hér er færslan um hans ár. Hann kallar þetta "Year of living without" og eru allar hans áskoranir þannig að hann neiti sér um eitthvað. Áskoranirnar sem ég hef valið eru margar þannig en ekki allar. Þær eiga það sameiginlegt samt að ég tel að lífið mitt verður einfaldara, ég mun læra eitthvað nýtt eða mér mun líða betur í kjölfarið.
Planið fyrir alla mánuði er ekki alveg fastmótað, þ.e. í hvaða mánuði áskoranirnar verða teknar og enn er möguleiki að einhverjum verði skipt út. Hér eru drögin:
1. enginn sykur (janúar)
2. engir samfélagsmiðlar (febrúar)
3. æfa lyftingar
4. vegan
5. ekkert sjónvarp
6. ekki sitja í sófa
7. ganga frá öllu í húsinu um kvöldið
8. hugleiðsla daglega
9. fara snemma að sofa
10. jóga daglega
11. lesa í 30 mín á dag
12. fara og njóta náttúrunnar á hverjum degi
Uppfært!
Áskoranir sem búið er að skipta út:
13. ekki kaupa neitt (fyrir nr. 7)
14. engin förðun (fyrir nr. 11)
15. vera í sömu fötunum alla daga (fyrir nr. 9)
Síðan ég talaði um þetta hafa tvær vinkonur mínar ákveðið að vera með í "samfélagsmiðlalausum febrúar"! Það mun klárlega vera erfiðasta áskorunin.
Engin förðun mun líklega skiptast út fyrir eitthvað annað, það væri eiginlega of auðvelt fyrir mig.
Vildi deila þessu með ykkur ef einhver vildi kannski prófa, einn, nokkra eða alla mánuði ársins.
Eftir hvern mánuð ætla ég svo að skrifa færslu um af hverju ég valdi þessa áskorun, hvernig gekk og hvað ég lærði. 
Hlakka til að sjá hvernig þetta þróast.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli