þriðjudagur, 28. febrúar 2017

28 dögum síðar - mánuður án samfélagsmiðla

Þessi tilraun hefur verið mjög áhugaverð og margt komið á óvart. Fyrstu dagana fann ég mikið fyrir því að vera ótengd samfélagsmiðlum en eftir því sem á leið minnkuðu áhrifin. Ég var hálf eirðarlaus og tók til og þreif heilmikið. Ætli ég hafi ekki verið svo upptekin áður af tölvunni eða símanum að ég hafi ekki verið að horfa almennilega í kringum mig.

Ennþá mikið að gera

Ég bjóst hálfpartinn við því að þegar ég hætti á samfélagsmiðlum myndi ég hafa ótrúlega mikinn aukatíma. En svo var ekki. Í staðinn tók ég betur eftir því hvað tímanum mínum var mikið ráðstafað. Sem var gott og slæmt að uppgötva. Gott að vita að ég var ekki að sóa öllum tímanum mínum í hangs á netinu en það þýðir líka að verkefnið að einfalda lífið heldur áfram og krefst meiri athygli og meðvitundar. Ég er sannfærð um að KonMari átakið sem ég ætla að klára líka fyrir sumarið og fleiri "slow living" tilraunir muni hjálpa mikið til.

Meira samband við fólk

Ég held að margir haldi af ef þeir væru án samfélagsmiðla væru þeir algerlega útúr og myndu missa tengsl við fólk. En það var ekki mín reynsla. Þann 31. janúar höfðu nokkrir samband við mig á messenger til að láta mig fá símanúmerið sitt og vera viss um að við gætum haldið sambandi utan Facebook sem var mjög fallegt að sjá. Síðan voru tveir viðburðir skipulagðir á Facebook sem vinir og kunningjar létu mig vita af svo ég myndi ekki missa af. Á móti hafði ég líka meira samband við fólk og hringdi og fór í heimsókn. Auðvitað er þetta eitthvað sem er vel hægt að gera án þess að hætta á samfélagsmiðlum en ég held að samfélagsmiðlanotkun búi til aðeins falska ímynd um að maður sé í tengslum við fólk og þess vegna hafi maður minna samband við vini og fjölskyldu.

Meiri hugarfriður

Eitt af því sem ég hef gert undanfarin ár er að minnka hversu mikið af upplýsingum ég tek inn. Þannig hlusta ég aldrei á útvarp, ekki heldur í bíl en þó stundum hlaðvörp eða hljóðbækur. Við horfum ekki á sjónvarpsdagskrá. Ég les ekki mikið af fréttum, allavega ekki daglega. En ég hafði ekki sérstaklega yfirfært þetta á samfélagsmiðla. Eftir mánaðarpásu tek ég eftir því að það er meiri friður í huganum þegar ég er ekki að melta pælingar og vangaveltur alls og allra. Það er klárlega eitthvað sem ég vil halda í framvegis.

Minni kvíði

Undanfarna mánuði hef ég verið meira kvíðin en vanalega. Líklega er það vegna álagsins sem fylgir því að eiga nýlega barn en líka höfum við flakkað aðeins á milli landshluta og dvalið í stakar vikur nokkrum sinnum vegna vinnu mannsins míns og það hefur örugglega eitthvað hlutverk þar líka. En seinni hluta febrúar hef ég varla fundið fyrir kvíða! Þetta er eitthvað sem fagfólk talar um í meira mæli, að mikilli notkun samfélagsmiðla fylgi kvíði en ég hafði ekkert ímyndað mér að það ætti við um mig. Þar til núna.

Quit Social Media - TED talk

Vinkona benti mér á þetta TED erindi um að hætta á samfélagsmiðlum. Þarna talar Dr. Cal Newport um 3 helstu ástæður sem fólk gefur fyrir því að það geti ekki hætt á samfélagsmiðlum og hvernig þær staðhæfingar standast ekki. Þarna er margt áhugavert sem hann talar um og ég mæli með að horfa: Quit social media | Dr. Cal Newport | TEDxTysons

Hvað ég ætla að gera í framhaldinu

Það er öruggt að segja að þessi mánuður hefur fengið mig til að vilja breyta samfélagsmiðlanotkun minni til frambúðar. Ég mun ekki hætta alveg, allavega ekki núna, en minnka fyrrum notkun mjög mikið. Það er ýmislegt sem ég vil forðast eins og heilalaust skroll niður fréttaveituna; lesa facebook um leið og ég vakna og byrja daginn á alls konar pælingum sem ég hefði vel geta verið án; hangs í tölvunni þegar ég ætti að vera að gera eitthvað annað eins og elda mat, sinna börnum og heimili eða bara slaka á í alvörunni (facebook hangs er ekki slökun). Til að lágmarka líkur á að þetta fari að gerast aftur ætla ég að gera eftirfarandi.

Nota hópa áfram

Nokkrir hópar á Facebook eru í uppáhaldi hjá mér og ég geri ráð fyrir að taka þátt í umræðum þar áfram. Ég hef gaman að því að læra eitthvað nýtt og spjalla og kynnast nýju fólki með svipuð áhugamál. Eins hef ég líka gaman af því að benda á áhugaverðar greinar eða efni sem ég les með fólki sem hefur áhuga svo ég mun halda því áfram.

Unfollow

Ég ætla að segja mig úr hópum sem ég hef ekki lengur gagn eða gaman af og hætta að fylgja síðum og fólki sem ég tengi ekki við lengur. Sama á við um Snapchat og Instagram að ég ætla að af-fylgja því sem ég hef ekki gaman af lengur.

Samfélagsmiðlar á ákveðnum dögum

Í framhaldinu sé ég fyrir mér að hafa ákveðna daga þar sem ég nota samfélagsmiðla. Það er vel hægt að fylgjast með því sem fram fer án þess að kíkja inn á hverjum degi. Það kemur betur í ljós eftir því sem á líður hvað hentar best en ég sé fyrir mér tvo daga í viku sem samfélagsmiðladaga.

Blogga meira

Eitt af því sem ég geri hvað mest á samfélagsmiðlum er að deila allskonar pælingum um mínimalískan lífsstíl, uppeldi, núvitund eða fleira í þeim dúr. Ég ætla að byrja að birta þær frekar hér á þessu bloggi og hinni bloggsíðunni minni Kæra vinkona.

Árlegt frí

Ég gæti vel hugsað mér að taka svona pásu á hverju ári svo ég stefni að því að gera þetta aftur í febrúar á næst ári.

Skrítið að koma aftur 

Það kvikna blendnar tilfinningar að hugsa um að koma aftur á samfélagsmiðlana. Þessi mánuður hefur virkilega gefið mér tíma til að velta því fyrir mér hvað það er sem samfélagsmiðlar gefa mér og hverju þeir ræna mig. Vonandi tekst mér í framhaldinu að nota þá þannig að það henti mér sem best.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli