mánudagur, 6. mars 2017

Massa Mars - lyftingar daglega

Áskorunin fyrir mars mánuð er lyftingar með eigin þyngd daglega. Að byrja að lyfta er eitthvað sem hefur staðið til hjá mér lengi svo ég er mjög spennt fyrir þessari áskorun. Reyndar er ég spennt fyrir þeim öllum, en jæja.

Mikilvægt að hafa æfingar daglega

Þegar ég hugsaði fyrst um þetta ætlaði ég að hafa lyftingar annan hvern dag svo það yrðu 3-4 sinnum í viku. En fyrir stuttu las ég þessa færslu á Zen Habits þar sem Leo talar um að best væri að gera hreyfingu að daglegum sið frekar en 3-4 sinnum í viku. Þannig væri auðveldara að muna og líklegra að vaninn haldist. Eftir að ég las það ákvað ég að gera hreyfingu að daglegum sið og skrifa það hjá mér í dagbókina mína. Svo þegar kom að því að gera þetta lyftingaplan varð það auðvitað að vera lyftingar á hverjum degi líka.

Planið

Þar sem ég ætla að lyfta á hverjum degi má planið ekki vera of mikið fyrir hvern dag. Þess vegna setti ég saman plan þar sem eru bara tvær æfingar á dag. Ég skoðaði aðeins hvaða vöðvahópar eru notaðir í hverri æfingu og raðaði þeim þannig saman að vöðvarnir fá hvíld einn dag á milli. Það skiptir kannski ekki svo miklu máli þar sem ég er ekki að nota lóð og líkaminn minn ræður eflaust ágætlega við álagið en þetta kemur vel út finnst mér. Planið skiptist á 6 daga, ég set nöfnin á ensku líka ef þið viljið fletta þeim upp til að sjá nákvæmar skýringamyndir.
  1. Niðurstig og planki á olnbogunum // Lunges and elbow plank
  2. Hnébeygjur og dýfur // Squat and tricep dips
  3. Planki og bakæfing // Plank and bird-dog exercise
  4. Brú og fjallganga // Bridge and mountain climbers
  5. Upphífing og magaæfing // Pull-ups and dead-bug exercise *
  6. Hliðarplanki og flugvélaæfing // Side plank and airplane pose exercise
Hér er planið uppsett í dagbókinni minni. Undirstrikað hvaða æfing er fyrir hvern dag.
Flestar þessarra æfinga fékk ég ráðlagt hjá sjúkraþjálfaranum mínum en þær henta eflaust flestum. Þær leggja mikið áherslu á bak og marga vöðvahópa í einu. 

*Smá vandræði með upphífingar

Ég hafði ekki hugsað upphífinga æfinguna alveg til enda en ég á ekki upphífingastöng. Ég á heldur ekki borð sem ég get notað en ef þið vissuð ekki þá er hægt að leggjast undir borð og hífa sig upp á brúninni. En ég get ekkert gert upphífingu hvort eð er svo ég byrjaði bara á að gera undirbúningsæfingar fyrir upphífingu. Það var "bent over dumbbell row" með epladjúsbrúsa fylltum með vatni. Hann vegur tæplega 4 kg sem var aðeins of létt svo næst mun ég útbúa aðeins þyngri lóð. Þetta voru einu vandræðin sem ég lenti í en allar hinar æfingarnar gengu mjög vel.

Finn strax mun

Í dag er 6. mars svo ég er búin að fara í gegnum allt planið einu sinni. Strax á fjórða degi fann ég mun á mér og leið mjög vel í líkamanum. Ég veit þetta er ekki mikil líkamsrækt en ef samanburðurinn er engin líkamsrækt þá finnst mér þetta bara nokkuð gott!

Heil æfing á kortéri

Ég byrja á stuttri upphitun, aðeins að fá púlsinn upp og hita líkamann. Ég geri svo 3 umferðir af báðum æfingum og misjafn hvað hentar að gera margar endurtekningar í einu. Með plankann tek ég tímann og byrjaði með mínútu en hálfa mínútu fyrir hliðarplanka. Ég hvíli stutt á milli umferða og hef vatnsglas við höndina. Þegar ég er búin teygji ég eða geri stutta jógarútínu. Eftir það er tilvalið að gera hugleisðlu ef maður hefur tíma. 
En allt þetta ætti að nást á undir fimmtán mínútum. Og þetta eru ekki svo mikil átök að ég þurfi að fara í sturtu. Þannig að svo þó ég væri ekki búin að gera æfingarnar og væri að fara að sofa, taka þær svo stuttan tíma að ég get eiginlega ekki réttlætt það að svindla.

Mínimalísk líkamsrækt

Það sem ég dýrka við þetta er að þú þarft ekki að fara í ræktina til að hugsa vel um líkamann þinn. Að fara í ræktina er ekki ódýrt og það krefst tíma og fyrir foreldra, pössun fyrir börn. Þannig að æfingar heima geta verið frábær kostur fyrir marga, mig þar með talda. Og fyrir þessar æfingar þarf engin tól eða tæki.

Engin afsökun

Ef þér finnst þetta spennandi er ekkert að stoppa þig! Það þarf ekki að vera fyrsti dagur mánaðarins og þú þarft ekki heldur að taka heilan mánuð. Byrjaðu bara í dag og sjáðu hvort þér líði ekki betur. 

þriðjudagur, 28. febrúar 2017

28 dögum síðar - mánuður án samfélagsmiðla

Þessi tilraun hefur verið mjög áhugaverð og margt komið á óvart. Fyrstu dagana fann ég mikið fyrir því að vera ótengd samfélagsmiðlum en eftir því sem á leið minnkuðu áhrifin. Ég var hálf eirðarlaus og tók til og þreif heilmikið. Ætli ég hafi ekki verið svo upptekin áður af tölvunni eða símanum að ég hafi ekki verið að horfa almennilega í kringum mig.

Ennþá mikið að gera

Ég bjóst hálfpartinn við því að þegar ég hætti á samfélagsmiðlum myndi ég hafa ótrúlega mikinn aukatíma. En svo var ekki. Í staðinn tók ég betur eftir því hvað tímanum mínum var mikið ráðstafað. Sem var gott og slæmt að uppgötva. Gott að vita að ég var ekki að sóa öllum tímanum mínum í hangs á netinu en það þýðir líka að verkefnið að einfalda lífið heldur áfram og krefst meiri athygli og meðvitundar. Ég er sannfærð um að KonMari átakið sem ég ætla að klára líka fyrir sumarið og fleiri "slow living" tilraunir muni hjálpa mikið til.

Meira samband við fólk

Ég held að margir haldi af ef þeir væru án samfélagsmiðla væru þeir algerlega útúr og myndu missa tengsl við fólk. En það var ekki mín reynsla. Þann 31. janúar höfðu nokkrir samband við mig á messenger til að láta mig fá símanúmerið sitt og vera viss um að við gætum haldið sambandi utan Facebook sem var mjög fallegt að sjá. Síðan voru tveir viðburðir skipulagðir á Facebook sem vinir og kunningjar létu mig vita af svo ég myndi ekki missa af. Á móti hafði ég líka meira samband við fólk og hringdi og fór í heimsókn. Auðvitað er þetta eitthvað sem er vel hægt að gera án þess að hætta á samfélagsmiðlum en ég held að samfélagsmiðlanotkun búi til aðeins falska ímynd um að maður sé í tengslum við fólk og þess vegna hafi maður minna samband við vini og fjölskyldu.

Meiri hugarfriður

Eitt af því sem ég hef gert undanfarin ár er að minnka hversu mikið af upplýsingum ég tek inn. Þannig hlusta ég aldrei á útvarp, ekki heldur í bíl en þó stundum hlaðvörp eða hljóðbækur. Við horfum ekki á sjónvarpsdagskrá. Ég les ekki mikið af fréttum, allavega ekki daglega. En ég hafði ekki sérstaklega yfirfært þetta á samfélagsmiðla. Eftir mánaðarpásu tek ég eftir því að það er meiri friður í huganum þegar ég er ekki að melta pælingar og vangaveltur alls og allra. Það er klárlega eitthvað sem ég vil halda í framvegis.

Minni kvíði

Undanfarna mánuði hef ég verið meira kvíðin en vanalega. Líklega er það vegna álagsins sem fylgir því að eiga nýlega barn en líka höfum við flakkað aðeins á milli landshluta og dvalið í stakar vikur nokkrum sinnum vegna vinnu mannsins míns og það hefur örugglega eitthvað hlutverk þar líka. En seinni hluta febrúar hef ég varla fundið fyrir kvíða! Þetta er eitthvað sem fagfólk talar um í meira mæli, að mikilli notkun samfélagsmiðla fylgi kvíði en ég hafði ekkert ímyndað mér að það ætti við um mig. Þar til núna.

Quit Social Media - TED talk

Vinkona benti mér á þetta TED erindi um að hætta á samfélagsmiðlum. Þarna talar Dr. Cal Newport um 3 helstu ástæður sem fólk gefur fyrir því að það geti ekki hætt á samfélagsmiðlum og hvernig þær staðhæfingar standast ekki. Þarna er margt áhugavert sem hann talar um og ég mæli með að horfa: Quit social media | Dr. Cal Newport | TEDxTysons

Hvað ég ætla að gera í framhaldinu

Það er öruggt að segja að þessi mánuður hefur fengið mig til að vilja breyta samfélagsmiðlanotkun minni til frambúðar. Ég mun ekki hætta alveg, allavega ekki núna, en minnka fyrrum notkun mjög mikið. Það er ýmislegt sem ég vil forðast eins og heilalaust skroll niður fréttaveituna; lesa facebook um leið og ég vakna og byrja daginn á alls konar pælingum sem ég hefði vel geta verið án; hangs í tölvunni þegar ég ætti að vera að gera eitthvað annað eins og elda mat, sinna börnum og heimili eða bara slaka á í alvörunni (facebook hangs er ekki slökun). Til að lágmarka líkur á að þetta fari að gerast aftur ætla ég að gera eftirfarandi.

Nota hópa áfram

Nokkrir hópar á Facebook eru í uppáhaldi hjá mér og ég geri ráð fyrir að taka þátt í umræðum þar áfram. Ég hef gaman að því að læra eitthvað nýtt og spjalla og kynnast nýju fólki með svipuð áhugamál. Eins hef ég líka gaman af því að benda á áhugaverðar greinar eða efni sem ég les með fólki sem hefur áhuga svo ég mun halda því áfram.

Unfollow

Ég ætla að segja mig úr hópum sem ég hef ekki lengur gagn eða gaman af og hætta að fylgja síðum og fólki sem ég tengi ekki við lengur. Sama á við um Snapchat og Instagram að ég ætla að af-fylgja því sem ég hef ekki gaman af lengur.

Samfélagsmiðlar á ákveðnum dögum

Í framhaldinu sé ég fyrir mér að hafa ákveðna daga þar sem ég nota samfélagsmiðla. Það er vel hægt að fylgjast með því sem fram fer án þess að kíkja inn á hverjum degi. Það kemur betur í ljós eftir því sem á líður hvað hentar best en ég sé fyrir mér tvo daga í viku sem samfélagsmiðladaga.

Blogga meira

Eitt af því sem ég geri hvað mest á samfélagsmiðlum er að deila allskonar pælingum um mínimalískan lífsstíl, uppeldi, núvitund eða fleira í þeim dúr. Ég ætla að byrja að birta þær frekar hér á þessu bloggi og hinni bloggsíðunni minni Kæra vinkona.

Árlegt frí

Ég gæti vel hugsað mér að taka svona pásu á hverju ári svo ég stefni að því að gera þetta aftur í febrúar á næst ári.

Skrítið að koma aftur 

Það kvikna blendnar tilfinningar að hugsa um að koma aftur á samfélagsmiðlana. Þessi mánuður hefur virkilega gefið mér tíma til að velta því fyrir mér hvað það er sem samfélagsmiðlar gefa mér og hverju þeir ræna mig. Vonandi tekst mér í framhaldinu að nota þá þannig að það henti mér sem best.

fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Friðsæld í febrúar / engir samfélagsmiðlar

Áskorunin fyrir febrúar mánuð er að taka frí frá samfélagsmiðlum. Þetta er sú áskorun sem hefur fengið mestu viðbrögðin myndi ég segja. En að sama skapi hafa margir ákveðið að taka henni líka!
Í dag eru samfélagsmiðlar svo stór partur af lífi okkar flestra að það setur stórt skarð í reikninginn að taka þá út. En þeir eru ekki lífsnauðsynlegir svo það er áhugavert að sjá hvernig lífið er án þeirra í smátíma.
Það verður ekki hjá því komist að segja að ég noti Facebook frekar mikið. Bæði er ég stjórnandi ýmsa hópa en svo hef ég líka mjög gaman af því að fræðast um nýja hluti og spjalla við fólk með svipuð áhugamál þar í þeim fjölmörgu hópum sem hafa myndast um alls konar málefni - allt frá súrdeigsbrauðgerð til barnauppeldis.

Hverjar eru reglurnar

Ég skrái mig út af Facebook og eyði appinu úr símanum. Mér finnst óþarfi að breyta lykilorðinu og láta manninn minn hafa það því ég er alveg ákveðin í þessu.
Instagram fer líka. Twitter líka. Ég nota Twitter reyndar ekki neitt en áður þegar ég hef farið í Facebook-hlé hef ég ákveðið að kannski ætti ég að nota Twitter meira. Nei, ekki núna.
Á síðustu stundu ákvað ég að sleppa Messenger líka en það er aðal samskiptamiðillinn sem ég nota. Kannski þarf ég að svindla aðeins og nota Messenger til að tala við fólk sem ég finn ekki á annan hátt.
Ég ætla að halda snapchat til að fylgjast með mínimalista snappinu (sc: minimalistar) en ég má ekki snappa sjálf. Eða, nei bíddu aðeins. Ég ætla að sleppa snapchat líka. Fyrst ég ætla að gera þetta, þá geri ég þetta alveg! Þið gefið mér bara samantekt á því besta sem ég missti af.
Í staðinn ætla ég að hringja, senda sms eða tölvupósta til að hafa samband við fólk en aðallega hitta fólk frekar en að spjalla í gegnum síma/net.
Ég setti sérstaka prófíl mynd á Facebook þar sem stendur að ég sé í fríi til 1. mars. Hana gerði Elísa vinkona mín sem er einnig með í þessu fríi.

Hverju ég býst við

Ég býst við því að upplifa dagana lengri. Að kíkja af og til á símann og sjá hvað er að gerast eyðir alveg heilmiklum tíma. Hver kannast ekki við að ætla að sjá hvað klukkan er á símanum en sjá svo ný skilaboð og áður en þú veist af er kaffið orðið kalt og þú ert komin lengst í burt í netheiminum? Og veist ekki ennþá hvað klukkan er.
Ég sé fyrir mér að eyða eitthvað af þessum nýfengna tíma í að blogga en annars bara að lesa bækur, horfa á strákana mína, fara út að ganga, mála, prjóna og almennt vera til í hinum raunverulega heimi.
Vonandi mun ég ekki missa af neinum viðburðum á meðan ég er í burtu! Ég held að vinir mínir muni nú samt alveg eftir mér og láti mig vita.

Hvað ég vonast til að læra

Eins og með allar áskoranirnar vil ég læra eitthvað nýtt. Í febrúar vonast ég til að sjá betur hvað það er við samfélagsmiðla sem ég mun sakna og hvað ekki. Og hvernig ég get notað þá í framhaldinu til að njóta þeirra og lífsins sem mest.

Dagur eitt og tvö

Þar sem ég skrifa þetta 2. febrúar er ég komin tvo daga inn í mánuðinn. Í ófá skipti hef ég opnað símann af vana en séð svo að það er ekkert Facebook app til að gleypa tímann minn. Það er mjög skrítin tilfinning að hafa ekki Facebook. Eins og að stór hluti af heiminum mínum sé í gangi sem ég er ekki að taka þátt í. En á sama tíma er það léttir og ég upplifi ákveðna ró.

Ég ætlaði að skrifa þessa færslu í lok janúar til að taka saman hvernig ég sæi febrúar fyrir mér áður en hann byrjaði en er aðeins sein. Nú ætla ég að birta þennan pistil og senda hann út í kosmósið. Ég mun ekki deila honum og fylgjast með fólki læka og kommenta. Eins og í gamla daga.

fimmtudagur, 26. janúar 2017

Enginn sykur í janúar

Nú er langt liðið á janúar og margir sykurlausir dagar að baki. Hér vil ég deila reynslu minni og ástæðum fyrir þessari áskorun.

Af hverju sykurlaus?

Ég held það þurfi ekki mikið að útskýra af hverju einhver myndi prófa að taka út sykur enda er öllum kunnugt hvað sykur er slæmur fyrir okkur. Þess vegna vildi ég prófa að taka út viðbættan (hvítann) sykur.

Planið

Ég fór þó ekki svo langt að lesa á allar innihaldslýsingar í mat sem var ekki augljóslega sætur. Aðallega var þetta til að taka út sætindi, kökur og sykrað gos. Þannig að pulsubrauð var í lagi þó það innihaldi sykur. Ég mátti því borða ávexti, bæði ferska og þurrkaða. Svo leyfði ég sykurlaust gos en ég drekk ekki mikið af því hvort eð er. Dökkt súkkulaði, 70% eða meira, fíkjur og ostar var það sem kom helst í staðinn fyrir annað sykrað möns sem ég var vön (aðallega OREO og suðusúkkulaði). Mér fannst það bara fín tilbreyting. Ég keypti líka oftar jarðaber sem ég geri vanalega ekki og þeirra naut ég í botn!

Reynslan

Eftir nokkra daga þar sem ég þurfti að minna mig á að ég ætlaði að vera sykurlaus þennan mánuð var þetta ekki svo mikið mál. Mér fannst meira að segja auðvelt að fara ísrúnt á Valdísi og fá mér ekki ís.
Nokkrir svindldagar læddust inn sem ég hafði ekki gert ráð fyrir en þegar hugmyndin um það kom upp fannst mér það sjálfsagt - þetta er jú bara gert í tilraunarskyni og til gamans. Fyrsta svindlkvöldið var þegar við hjónin fórum út að borða og ég fékk mér kokteil. Kannski ekki mikið svindl en það var eitthvað sykrað í honum. Næstu svindldagar voru ekki af jafn miklu tilefni og mögulega ekki þess virði.

Núvitund skiptir máli

Í þau skipti sem mig langað mest að svindla var ég þreytt eða pirruð og langaði að tríta mig af því mér fannst ég eiga það skilið. 
Við vorum í tvær vikur á Ísafirði þar sem ég var heima með 4 ára og 6 mánaða strákana okkar á daginn á meðan maðurinn minn vann. Þá voru stundum langir dagar og fátt hljómaði betur en að háma í mig heilan pakka af OREO þegar strákarnir voru sofnaðir. En þá kom núvitundin sterk til leiks því þá áttaði ég mig vel á því að ég var að reyna að bæla eða sefa einhverjar tilfinningar/þreytu með mat. Ég eyddi smá tíma í að velta því fyrir mér - eins og ég lærði á núvitundarnámskeiði - og finna aðrar leiðir til að vinna úr þeim. Oft með góðri sturtu, hugleiðslu, göngutúr eða tebolla.
Ég held að það sama megi líklega segja um af hverju við kaupum hluti sem við höfum ekki góð not fyrir. Ef við getum aðeins staldrað við og skoðað hvaðan löngunin til að kaupa kemur held ég að við getum komist hjá flestum óþarfakaupum.

Eftirvæntingin betri en nammið sjálft

Það hefur verið sannað að tilhlökkun er oft stærri þáttur af gleðinni sem fylgir einhverju spennandi. Nákvæmlega þannig upplifði ég það í þau skipti sem ég leyfði mér að svindla. Þegar ég var búin að borða nammið var það ekki nærri því jafn gott og ég hafði séð fyrir mér og eiginlega ekki þess virði að svindla. Ég verð að segja að það kom mér aðeins á óvart. 
Hins vegar þegar ég valdi t.d. jarðaber eða fíkjur naut ég þess yfirleitt miklu meira. Ég borðaði það (oftast) með athygli og fannst gaman að velta fyrir mér litum, bragði, áferð og útliti þessara ávaxta.

Taka nesti með í veislu

Ókei, þetta gerðist reyndar ekki í þessum mánuði en mér finnst þetta eiga heima hér. Ég fór í 70 ára afmæli á síðasta ári. Eftir matinn voru bornar fram tertur, svaka rjóma-karamellu-marengs bombur. Mér varð eiginlega illt í maganum að horfa á þær og var frekar södd eftir matinn svo ég hafði ekki mikla lyst. Þá sé ég að ein frænkan í boðinu var með dökkt súkkulaði sem hún var að brjóta til að setja á undirskálina með kaffinu sínu. Fyrir algera tilviljun var ég líka með dökkt, mjólkurlaust súkkulaði með mér og ákvað að fá mér það í staðinn. Svo sátum við tvær og drukkum kaffi og smökkuðum dökka súkkulaðið hvor hjá annarri og töluðum um sykurminna líf. Þá var hún að taka út sykur hjá sér og kom þess vegna með nesti í veisluna. Mjög sniðugt - mér finnst eiginlega nauðsynlegt að fá eitthvað smá sætt með kaffinu.

Lokaorð

Þetta var bara mjög góð mánaðaráskorun og ég lærði ýmislegt. Í framhaldinu mun ég halda áfram að velja hollari kosti þó ég muni alveg leyfa mér ís og OREO öðru hvoru. Er t.d. mjög spennt fyrir vegan Ben&Jerry's sem ég keypti í gær og ætla að borða 1. febrúar!

miðvikudagur, 25. janúar 2017

Mánaðarlegar áskoranir í heilt ár

Ég ætla að gera áskorun í hverjum mánuði 2017. Ég minntist á þetta á mínimalista snappinu (SC: 'minimalistar'). Ég fékk hugmyndina frá Leo á zenhabits.net en hér er færslan um hans ár. Hann kallar þetta "Year of living without" og eru allar hans áskoranir þannig að hann neiti sér um eitthvað. Áskoranirnar sem ég hef valið eru margar þannig en ekki allar. Þær eiga það sameiginlegt samt að ég tel að lífið mitt verður einfaldara, ég mun læra eitthvað nýtt eða mér mun líða betur í kjölfarið.
Planið fyrir alla mánuði er ekki alveg fastmótað, þ.e. í hvaða mánuði áskoranirnar verða teknar og enn er möguleiki að einhverjum verði skipt út. Hér eru drögin:
1. enginn sykur (janúar)
2. engir samfélagsmiðlar (febrúar)
3. æfa lyftingar
4. vegan
5. ekkert sjónvarp
6. ekki sitja í sófa
7. ganga frá öllu í húsinu um kvöldið
8. hugleiðsla daglega
9. fara snemma að sofa
10. jóga daglega
11. lesa í 30 mín á dag
12. fara og njóta náttúrunnar á hverjum degi
Uppfært!
Áskoranir sem búið er að skipta út:
13. ekki kaupa neitt (fyrir nr. 7)
14. engin förðun (fyrir nr. 11)
15. vera í sömu fötunum alla daga (fyrir nr. 9)
Síðan ég talaði um þetta hafa tvær vinkonur mínar ákveðið að vera með í "samfélagsmiðlalausum febrúar"! Það mun klárlega vera erfiðasta áskorunin.
Engin förðun mun líklega skiptast út fyrir eitthvað annað, það væri eiginlega of auðvelt fyrir mig.
Vildi deila þessu með ykkur ef einhver vildi kannski prófa, einn, nokkra eða alla mánuði ársins.
Eftir hvern mánuð ætla ég svo að skrifa færslu um af hverju ég valdi þessa áskorun, hvernig gekk og hvað ég lærði. 
Hlakka til að sjá hvernig þetta þróast.

miðvikudagur, 30. desember 2015

Hugleiðsla daglega - áramótaheiti 2016

Eftir að hafa lokið námskeiði í núvitund og fundið fyrir góðum áhrifum iðkunarinnar vil ég gjarnan halda henni uppi. Það gekk mjög vel á meðan á námskeiðinu stóð og stuttu eftir en þegar aðhaldið var farið var erfitt að halda henni við. Þess vegna ákvað ég að hafa það sem áramótaheiti. Síðustu ár hef ég tekið áramótaheitin alvarlega og sinnt þeim vel svo ég er ekki hrædd um að þetta fari í vaskinn.
Til að gera heitið líklegt til árangurs hef ég tekið saman nokkrar leikreglur og annað slíkt.

Aðeins má líða einn dagur án hugleiðslu

Þetta skiptir mestu máli þegar maður er að byggja upp vanann. Sagt er að það taki þrjátíu daga að skapa sér nýja siði svo vonandi verður það komið í byrjun febrúar.

Lágmark tíu mínútna hugleiðsla (en allt er þó betra en ekkert)

"Þriggja mínútna hugleiðsla getur haft mikil áhrif, en ef þú hefur engan tíma, þá eru tuttugu mínútur algjört lágmark."
Ég á allavega tíu lausar mínútur á hverjum degi. En ef ekki, þá er allt betra en ekkert. 

Stefna að lengri hugleiðslum eða um það bil 40 mínútur

Þegar vaninn er komin ætla ég að gera ráð fyrir 40 mínútum á dag. Eflaust koma dagar sem það gengur ekki upp en það er markmiðið til lengri tíma. 


Einn kyrrðardagur á árinu

Á núvitundarnámskeiðinu var einn dagur í kyrrð. Þá voru allir nemendurnir samankomnir í stóru húsi í náttúrunni talsvert fyrir utan Reykjavík. Þar vorum við í fimm klukkustundir án þess að tala, borðuðum, fórum í göngutúr, gerðum hugleiðslur og jóga. Það var mjög nærandi og gefandi dagur og vil ég endurtaka það allavega einu sinni á árinu. Ýmist með því að fara á sérstakan kyrrðardag eða endurskapa hann bara sjálf.


Mismunandi hugleiðslur

Hægt er að gera margar mismunandi hugleiðslur; gangandi, metta (kærleikshugleiðsla), borða með vakandi athygli, skýjaáhorf og ýmislegt fleira. Til að halda fjölbreytni og fá mismunandi upplifanir ætla ég að breyta til reglulega og prófa ýmislegt.


Halda núvitundardagbók

Ég byrjaði á námskeiðinu að halda dagbók og mun halda því áfram. Það er mjög gaman að sjá hve margt maður lærir og upplifir í þessu ferli. Þannig get ég líka séð hversu langt ég er komin miðað við byrjun.


Skrá hverja hugleiðslu á árs-plakat

Sem aðhald og hvatning fékk ég mér stórt dagatalsplakat með öllum dögum ársins og þar ætla ég að merkja við hverja hugleiðslu. Þannig verður gaman að sjá árið fyllast út og fylgjast með árangrinum.

Leiddar hugleiðslur

Til að byrja með sérstaklega ætla ég að gera sem mest af leiddum hugleiðslum. Smám saman líklega æfist þetta og auðveldara verður að gera hugleiðslur án leiðslu.
Ef þið eruð frekar ný í hugleiðslu gæti verið gott að prófa Headspace eða Stop, Breathe, Think, bæði eru til sem forrit í snjallsíma.
Annars er til aragrúi af öðru fríu efni á netinu eftir flotta kennara. Tara Brach er uppáhaldskennarinn minn hingað til og er hægt að finna heilmargar hugleiðslur og fyrirlestra eftir hana á vefsíðunni hennar.   

Hlaðvörp um núvitund

Hlaðvörp (e. podcasts) eru alltaf að verða vinsælli og fjölbreyttari. Með því að hlusta á þau má fræðast um nánast hvað sem hugann girnist - þar á meðal núvitund. Mér finnst mjög gaman að læra um áhrif og gagnsemi hugleiðslu og um ýmsar leiðir til að bæta sjálfan sig í henni.
Ég hef hlustað mikið á Tara Brach sem er bandarískur sálfræðingur. Hún talar mikið í anda búddhatrúar um hugleiðslu, tilfinningar og segir líka brandara. 
Annar þáttur sem ég hef haft gaman af er On Being. Þeir eru ekki um hugleiðslu en fjalla mikið um meiningu lífsins og oftar en ekki hefur það eitthvað að gera með að staldra við, upplifa og njóta.

Ef hugleiðsla er eitthvað sem þið hafið áhuga á hvet ég ykkur til að prófa eitthvað af þessu sem gæti hentað ykkur. Einnig eru allir áhugasamir velkomnir í spjallhópinn Áhugafólk um núvitund á Facebook en þar eru ýmsar umræður sem tengjast hugleiðslu, námskeiðum og margt fleira.


Gleðilegt nýtt (hugleiðslu) ár!

fimmtudagur, 26. nóvember 2015

Hvað hefur mínimalískur lífstíll að gera með sparnað og umhverfisvernd?

Mínimalískur lífstíll.
Umhverfisvernd, nýtni, minnka sóun af ýmsu tagi, fækka umbúðum, sparnaður og endurvinnsla.


Þessu er gjarnan öllu hent saman í eina súpu og þetta talið vera samofið og órjúfanlega partur hvert af öðru.
Ég vil ekki meina það og ætla aðeins reyna að setja í orð hvers vegna.

Að mörgu leyti eru þessi seinni atriði áhugamál. Sumir hafa gaman af því að leggja áherslu á þau í sínu lífi, aðrir ekki.
Mínimalískur lífstíll er hins vegar, eins og orðin gefa til kynna, lífstíll. Að lifa lífinu þínu þannig að þú gerir það sem þér finnst skemmtilegt, átt þá hluti sem þú hefur gagn og gaman af og reynir að vera laus við óþarfa. Öllum finnst gaman að hafa tíma fyrir það sem er skemmtilegt og þurfa ekki að pæla mikið í óþarfa sem veitir enga gleði.
Fyrir flesta myndi mínimalískur lífstíll þá þýða að geyma ekki öll ósköpin af dóti og drasli "bara vegna þess" eða "gæti mögulega þurft að nota einhverntímann". Fyrir flesta myndi það líka þýða minni tíma varið í verslunum því þeir hafa áttað sig á því að þeir 'þurfa' ekki fullt af meira dóti.


Þeir sem hafa áhuga á umhverfisvernd kaupa frekar notaða hluti eða þá umhverfisvænni hluti.
Þeir sem vilja spara reyna að kaupa hluti ódýrt og minna af óþarfa eða lúxus.

Ég held að meirihluti manna hafi ekki gaman af því að þurfa að verða sér úti um nýja hluti eða spá t.d. mikið í því hverju þeir klæðast hvern daginn, svo kannski reyna þeir sem vilja lifa mínimalískum lífstíl frekar eiga fáa og vandaða hluti og flíkur. Þannig fer minni tími í að kaupa nýtt (ef hitt bilar eða skemmist) og minni tími fer í að t.d. velja föt því færri föt eru í skápnum.
Þetta er vitaskuld mismunandi eftir fólki. Sumir hafa gaman af því að leita að nýjum hlutum og klæða sig vel og fjölbreytt.

Með því að vera meðvitaðari um hvað maður kaupir gæti maður þó sparað pening og hugsað vel um umhverfið í leiðinni.
En maður gæti líka keypt rándýr föt og hluti í stað þess að kaupa marga ódýra.
Eða jafnvel gæti maður keypt föt og hluti sem eru óumhverfisvænastir.

Eitt leiðir því ekki endilega af sér annað þó þessi áhugamál geti farið mjög vel saman við mínimalískan lífstíl.